laugardagur, 11. ágúst 2007

Trölladyngja 26. mars 2006


Nú var sem á mig hafi runnið æði. Daginn eftir Helgafellið var ég kominn á tind Trölladyngju á Höskuldarvöllum á Reykjanesi. Það var kalt en sem samt fínt, eða þannig ég fór ekki eftir leiðbeiningum og í skriðu lenti ég í vanda, hún var laus í sér og erfið, sér í lagi fyrir hlunk einsog mig, eða einsog ég var.
Þetta var bara fyrsta ferðin á Trölladyngju. Þær áttu eftir að verða margar.
Ef einhver les þetta mæli ég með að allir sem fara á fjöll fari eftir leiðbeiningum. Nú meira en 100 tindum síðar er ég að reyna að muna þetta.

Helgafell ofan Hafnarfjarðar


Næst fór ég á Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Það var 25. mars og segja má að þar hafi nýr kafli hafist. Ekkert fell hef ég sótt eins oft og Helgafell. Helgafellið er mjög gott til æfinga. Að því er um fimmtán mínútna gangur og það tekur 20 til 30 mínútur að fara upp fellið. Langt er síðan ég byrjaði að mæla tímann og geri flest til að fara sem hraðast, vera sem fljótastur. Helgafellið er sjarmerandi.
Ég mun ekki setja inn allar ferðirnar á Helgafell, veit ekki hvað þær eru margar, en þær skipta þúsundum.

Nokkrar stuttar ferðir

Næstu ferðir voru endurtekningar, á Helgafell í Mosó og Úlfarsfell og ein á Valahnjúka. Næst segir frá sjöundi göngunni.

Helgafell í Mosó 4.3.2006


Áfram var haldið og nú vann ég tvo sigra, annar að komas á fell, Helgaell í Mosó og hinn að hafa fengið Kristborgu með mér. Við fórum upp austurhliðina og það reyndi aðeins á okkur, enda ekki í neinni æfingu. Eftir að við komumst upp gengum við hringinn uppi. Veðrið var frábært og skapið líka. Þetta var fín ganga og æsti mig til að gera meira, sem ég og gerði.

Helgafell í mOS

Úlfarsfell 25.2. 2006


Eftir að Kristborg gaf mér bókina um uppgönguleiðir á 151 tind, byrjaði ég að ganga. Í fyrstu voru engin markmið. Nema kannski að léttast, ég var 126 kíló og mér leið ekki vel. Leið reyndar illa. Fyrsta gangan var á Úlfarsfell. Þó það sé ekki hátt reyndi það á minn þunga skrokk.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Helgafell 6. ágúst 2007



Þær eru margar ferðirnar sem ég hef farið á Helgafellið. Fínasta fjall til æfinga. Þaðan er gott útsýni þegar skyggni er fínt. Þó margir gangi á Helgafelli undrar mig oft hversu margir fara á mis við þetta létta en skemmtilega fjall.
Stundum eru yfir 20 bílar við Kaldársel sem segir hversu gott útivistarsvæði er í nágrenninu. Auk Helgafells er tilvalið að ganga á Húsfell, sem er nokkru lægra en Helgafell. Húsfell er í norðaustur frá Helgafelli. Þó Húsfell sé lægra tekur lengri tíma að ganga á það, þar sem gönguleiðin að því er lengri en á Húsfell. Valahnjúkar eru milli fellanna. Þeir eru lægri og ekki krefjandi á nokkurn hátt.
Mæli með Helgafelli fyrir alla. Þeir sem eru lengra komnir geta farið Helgafellið á tíma. Metið mitt er 57 mínútur frá bíl að bíl. Þá hljóp ég hluta leiðarinnar.

Leggjabrjótur


Ég gekk Leggjabrjót í júní. Keyrði í Botnsdal og gekk yfir til Þingvalla. Gangan var ekki erfið, en veðrið var einstakt, glaða sólskin alla gönguna. Ég renndi skálmum af buxunum og var með bera handleggi. Enda brann ég verulega.
Sex tímum eftir að ég lagði af stað úr Botnsdal kom Kristborg og sótti mig. Þá beið ég við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Hún keyrði mig í Botnsdal þar sem AO-141 beið.
Eftir á að hyggja var fyrri hluti gönguleiðarinnar skemmtilegri. Fjölbreyttari og þess vegna betri, þó sá hluti leiðarinnar væri á fótinn.

Hekla



Það var í lok júní sem við Kristborg gengum á Heklu. Höfðum kynnst fínasta gönguhópi. Við vorum rúmlega þrjátíu sem héldum á hið fræga eldfjall. Skemmtileg ganga í góðu veðri. En þegar við náðum á toppinn huldu skýin útsýnið.
Þrátt fyrir það var gangan skemmtileg og eftirminnileg. Ég hafði gengið nokkuð vikurnar á undan en Kristborg lítið. Hún varð því í raun að leggja meira á sig til að komast á topp Heklu.
Gönguhópurinn hyggur á að fara Fimmvörðuháls að ári. Við ætlum með.

100 tindar

100 tindar
Eftir að hafa farið á 100 tinda.